Að sögn Ingrid Kulman, framkvæmdastjóra Þekkingamiðlunar, hefur ótrúleg breyting orðið á umræðunni varðandi stöðu Íslands í hollensku pressunni. Ingrid, sem er hollenska að uppruna fylgist náið með umræðunni í Hollandi. Hún segir að dálkahöfundar stórblaðanna séu ekki að skafa utan af því og tala um einelti gagnvart landinu, yfirgang og kraftakeppni Hollands og Bretlands gagnvart Íslandi.

,,Sagt er að íslenska bankakerfið hafi verið smitað af Bush-Blair græðgistímanum. Viðbrögð lesenda við greinum Íslendinga eru okkur hagstæð," sagði Ingrid.

Að sögn Ingridar kom fram í viðtali í þættinum Pauw og Witteman við hagfræðiprófessor við háskólann í Amsterdam að fólk sem setti pening inn á Icesave hafi tekið áhættu. ,,Að fjármálaráðherra Hollands Bos hafi síðan greitt þessu fólki hinn tapaða pening úr hollenska ríkissjóðnum og gert ráð fyrir að Ísland myndi svo greiða hluta af þeirri upphæð. Þessi endurgreiðsla sé því Bos ad kenna sem tók med þessu áhættu. Útlensk ríkisstjórn, í þessu tilviki Holland, hafi greitt peninginn fyrirfram án þess ad spyrja íslensku þjódina og almenningur hafi ekki komið að Icesavereikningum á sínum tíma."

Ingrid segir að þessi háskólaprófessor hafi sagt að hann hafi búist við að forsetinn neitaði, skuldin sé svo há að Íslendingar komi hvort eð er ekki til með að borga hana alla, hvort sem fólk trúir því eða ekki, - enda hafi skuldir landsins verið háar þegar fyrir bankahrun og enn hærri eftir bankahrun. ,,Þess vegna taldi hann ólíklegt að þessir peningar fengjust nokkurn tímann - og það hafi Bos sjálfur sagt. Það að Alþingi hafi sagst ætla að borga hefur enga þýðingu, verði maður gjaldþrota berist engin peningur, sama hvað maður lofaði að borga."