Vilji Ross Beaty, forstjóra og aðaleiganda Magma Energy, til að selja orku sem HS Orka framleiðir til annarra stórnotenda en orkufyrirtækja er ekki nýr af nálinni. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að í bréfi sem Beaty hefur sent til iðnaðarráðuneytisins þá komi fram að hann vilji síður selja orku til álvera en annarra stórnotenda, en Magma er aðaleigandi HS Orku.

Í viðtali við Viðskiptablaðið þann 11. febrúar 2010 sagðist Beaty vilja auka fjölbreytni orkukaupenda hjá HS Orku. Þar sagði hann ennfremur að „Við teljum að nýtingarmöguleikar á Reykjanesskaganum séu meiri en þegar hefur verið reiknað með. Við höfum áhuga á að byggja upp iðnað og fjárhag Íslands með þeirri auknu orku. Með henni munum við reyna að auka fjölbreytni meðal stórnotenda sem við seljum orku og horfa víðar en eingöngu á áliðnaðinn.“