Afstaða forsvarsmanna Reykjavík Energy Invest til samruna Enex og Geysis Green Energy skýrist í vikunni. Samþykki þeir samrunann skýrist væntanlega um leið hvernig þeir vilja fá greitt fyrir hlutinn í Enex.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í dag hafa stjórnir GGE og Enex samþykkt samrunann. GGE á nú 73% í Enex en REI, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, á 26%.

Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR, segir að forsvarsmenn GGE hafa sent REI og OR erindi þar sem óskað er eftir afstöðu til samrunans. Hjörleifur segir enn fremur að verði hann samþykktur komi til greina að REI fái greitt fyrir sinn hlut í Enex með beinhörðum peningum eða með hlut í GGE.

Stjórnarfundur REI verður haldinn í vikunni og gerir Hjörleifur fastlega ráð fyrir því að þar verði málið afgreitt. Efnahagsreikningur Enex er um þrír milljarðar.