Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst hafa fengið rýr svör frá stóru bönkunum þremur þegar hann spurðist fyrir um stöðu gengislána innan bankanna og hversu mörg þeirra væru í ágreiningi. Þetta segir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

Guðlaugur Þór segir að staða gengislána innan bankanna hafi verið nokkuð í umræðunni. Samkvæmt Fjármálaeftirlitinu hafi 1.260 milljarðar króna verið í ágreiningi í árslok 2011 og Félag atvinnurekenda telji 547 milljarða króna enn vera í ágreiningi. Vegna þessara upplýsinga hafi hann sent fyrirspurn á bankana og í síðustu viku hafi hann fengið svör varðandi stöðu lánanna og hve mikið af þeim væri enn í þessari stöðu.

„Svör bankanna voru rýr svo ekki sé tekið dýpra í árinni: Landsbankinn svaraði engu efnislega en lætur að því liggja að engin mál séu í ágreiningi við viðskiptavini. Undirritaður hefur vitneskju um fjölda ágreiningsmála á milli bankans og viðskiptavina hans.

Íslandsbanki svaraði ekki og vísaði í gögn þar sem svör við þessum upplýsingum er ekki að finna.

Arion banki svaraði heldur ekki og sagði berum orðum að „Alþingi gegni ekki eftirlitshlutverki gagnvart bankanum“. Með öðrum orðum, ykkur þingmönnum kemur þetta ekki við! Það eru alvarlegar fréttir ef Alþingi og almenningur fær ekki upplýsingar um bankastarfsemina,“ skrifar Guðlaugur Þór.

Guðlaugur Þór segist hafa spurt um mjög stóra hagsmuni fyrir fyrirtæki og heimili í landinu og hann muni ekki láta hér við sitja. Hann hafi vakið athygli forseta þingsins á svarleysinu.

„Afstaða bankanna einkennist af hroka og virðingarleysi fyrir hagsmunum almennings. Skattgreiðendur eiga betra skilið,“ skrifar Guðlaugur Þór að lokum.