Gert er ráð fyrir, samkvæmt skattatillögum ríkisstjórnarinnar, að vísitölubinding persónuafsláttar verði afnumin um næstu áramót. Það þýðir að persónuafslátturinn mun ekki hækka í samræmi við hækkun verðlags á þessu ári eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Þetta staðfestir Indriði G. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, í samtali við Viðskiptablaðið. Þess í stað verður tekin upp krónutöluhækkun á persónuafslættinum.

Samkvæmt kynningu forsætis- og fjármálaráðherra á skattatillögunum 18. nóvember hækkar persónuafsláttur einstaklinga um tvö þúsund krónur á mánuði um næstu áramót eða um 24 þúsund krónur yfir heilt ár. Samkvæmt núgildandi lögum ætti hækkunin að nema rúmum 34.700 krónum sé miðað við að verðbólga ársins verði í kringum 9 prósent. Tólf mánaða verðbólga mældist 9,7% nú í október. Þarna munar um tíu þúsund krónum yfir árið sem skattgreiðendur hefðu fengið í aukinn persónuafslátt eða tæpar 900 krónur á mánuði.

Indriði segir breytingarnar á skattkerfinu komi betur út svona en að hækka persónuafslátt á tekjulága jafnt sem tekjuháa. Hins vegar er ljóst að skattleysismörkin, sem verða í kringum 119 þúsund krónur, hefðu orðið enn hærri ef núverandi fyrirkomulag yrði óbreytt.

Í lögum um tekjuskatt segir: „Persónuafsláttur manna, sem um ræðir í 1. mgr. 66. gr., skal vera [385.800] kr. [Persónuafsláttur skal í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. Fjárhæð persónuafsláttar skal birta með auglýsingu fjármálaráðherra fyrir upphaf staðgreiðsluárs.]“ Ljóst er, gangi þetta eftir, að krónutalan í hornklofanum hækkar á næsta ári í tæpar 410 þúsund krónur og setningin þar á eftir fellur út.