Ákveðið hefur verið að bjóða Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, stöðu framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Þetta er fullyrt á vef Aftenposten . Þar segir að verið sé að ljúka við ráðningu hans.

Aftenposten segir að bæði David Cameron, forsætisráðherra Breta, og Francois Hollande, forseti Frakklands, hafi lýst sig fylgjandi ráðningunni. Aftenposten hefur áður greint frá því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, vilji Stoltenberg í starfið.

Aftenposten segir að að best sé að spyrja að leikslokum og ófyrirséðir atburðir geti gerst áður en ráðningarferlinu lýkur. Eins og staðan sé núna virðist þó ekkert koma í veg fyrir að Stoltenberg taki við af Anders Fogh Rasmussen sem næsti framkvæmdastjóri.

Aftenposten segir líka að hugsanlegt sé að ráðning Stoltenbergs verði kynnt formlega á morgun.