Tim Cook forstjóri Apple
Tim Cook forstjóri Apple
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í tilkynningu til bandaríska fjármálaeftirlitsins kemur fram að Tim Cook, forstjóri Apple, bað um að fá ekki greidda út arðgreiðslu ásamt öðrum starfsmönnum sem eiga hlutabréf bundin til langs tíma. Hefði Tim Cook ákveðið að fá greiddan arð hefði sú upphæð hljóðað upp á 75 milljónir dollara eða um 9,8 milljarðar króna.

Cook á 1,1 miljón hluti í Apple af þeim 935 milljónum sem skráðir eru á markað. Markaðsverðmæti þeirra hluta sem Cook á í dag nemur tæpum 620 milljónum dala, jafnvirði 80 milljarða íslenskra króna. Það er dropi í hafið miðað við markaðsverðmæti Apple, sem er eitt af verðmætustu fyrirtækjunum sem skráð er á markað vestanhafs. Verðmætið við lokun markaða á föstudag nam tæpum 526 milljörðum dala.

Apple hefur ekki greitt arð til hluthafa í 17 ár en Cook breytti því þegar hann tók við af Steve Jobs sem forstjóri.

Eftir gríðarlega velgengni síðustu ára hefur Apple náð að sanka að sér gríðarlegum fjármunum eða um 100 milljarða dollara sem er rúmlega 13 þúsund milljarðar króna. Á tímabili átti Apple meira lausafé en bandaríska ríkið.