Fljótlega eftir að Frank Ú. Michelsen kom heim úr námi árið 1978, höfðu menn frá framleiðandanum Rolexsamband við hann og föður hans og buðu þeim umboðið fyrir Rolex-úrin. Hann var þá að vinna hjá föður sínum í Michelsen úrsmiðum.

„Við afþökkuðum og sögðum að það væri ekki hægt að selja svona dýra muni á Íslandi. Þeir héldu áfram að hafa samband við okkur og árið 1981 ákváðum við að fara og heimsækja þá á sýningu og ræða við þá. Þeir sannfærðu okkur um það að við skyldum allavega prófa. Og við byrjum á fimm úrum. Þessi úr koma til okkar í byrjun desember og á þeim tíma er 35% tollur á úrum fyrir utan söluskattinn sem þá var. Þannig að það var ekki nokkur leið að keppa við útlönd. Úrin koma og ég set litla svarthvíta auglýsingu sem birtist á bíósíðunum í Morgunblaðinu. Þegar ég fletti Mogganum morguninn eftir hugsaði ég að þessi auglýsing væri alveg ónýt. Hún myndi bara  hverfa í bíóauglýsingunum. En þegar ég mætti niður eftir í vinnu var síminn hringjandi og hann hélt áfram að hringja með fyrirspurnum allan daginn. Þá vissi enginn að Rolex væru að koma og þau höfðu ekki verið flutt inn síðan á stríðsárunum. Fyrir jólin seldust öll úrin og þar með byrjaði boltinn að rúlla,“ segir Frank.

Hann segir að kollegarnir hafi sagt að þeir væru ruglaðir að reyna þetta. „Þetta tókst og það tók tíma að vinna því inn þann sess sem það hefur á markaðnum. En þolinmæði þrautir vinnur allar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .