Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata, biður á Facebook-síðu sinni alla sem eiga um sárt að binda um að halda sig fjarri sér svo hún renni ekki á blóðið. Með skrifum sínum gerir hún létt grín að því sem Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir um lekamálið í Fréttablaðinu í dag. Sigrún sagði það algjöra steypu að lekamálið í innanríkisráðuneytinu sé fyrsta frétt viku eftir viku og virðist sem blóðhundarnir vilji meira blóð.

Fram kom í gær að þingflokkur Pírata hyggist leggja fram vantrauststillögu gegn Hönnu Birnu þegar Alþingi kemur saman í haust.

Birgitta segir á Facebook-síðu sinni um málið í dag:

„Ég vil bara vara vini mína við, ég var ekki bara skilgreind sem aftökusveit alþýðunnar á síðasta kjörtímabili fyrir að vilja að þeir sem voru sérstaklega tilgreindir í skýrslu rannsóknarnefndar alþingsis vegna hárra fjárframlaga frá bönkunum myndu sjá sóma sinn í að víkja af þingi, núna er ljóst að ég er hvorki meira né minna en blóðhundur samkvæmt þingflokksformanni framsóknar. Ég bið því alla sem eiga um sárt að binda að halda sér fjarri mér, svo að ég renni ekki á blóðið“.