Gengi bréfa Icelandair hækkaði mest, eða um 3,13% upp í 1,65 krónur, í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði, þar sem langflest fyrirtækin hækkuðu í verði eftir lækkanir síðustu daga. Úrvalsvísitalan hækkaði í dag um 0,68%, upp í 2.640,37 stig, í 1,8 milljarða heildarviðskiptum en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hófst vikan á töluverðum lækkunum.

Nú lækkuðu einungis tvö félög í verði, Kvika banki mest eða um 0,88%, niður í 16,85 krónur í 108 milljóna króna viðskiptum, og Sýn, sem lækkaði um 0,54%, niður í 36,95 krónur í litlum tveggja milljóna króna viðskiptum.

Sömu félög og leiddu lækkanirnar í gær eru nú hins vegar í mestu viðskiptunum, það er Arion banki og Icelandair en viðskiptin með síðarnefnda félagið námu 249,5 milljónum króna.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Arion banka líkt og áður, eða fyrir 324,6 milljónir króna, en hækkun bréfa bankans var sú þriðja mesta í dag, eða um 1,16%, upp í 96,10 krónur. 10% eignarhlutur í bankanum í eigu stærsta hluthafans, Taconic Capital Management, er nú til sölu og hafa fjárfestar til klukkan 18 í dag til að senda inn tilboð í hlutinn .

Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 202,6 milljónir króna, en bréf fyrirtækisins hækkuðu í þeim um 0,60%, upp í 837 krónur. Hækkun bréfa Símans var síðan sú næstmesta í kauphöllinni í dag, eða um 2,53%, upp í 8,10 krónur í 158 milljóna króna viðskiptum dagsins.

Pundið styrktist en dalurinn veiktist

Gengi krónunnar stóð í stað gagnvart evru annan daginn í röð, eða í 157,52 króna sölugengi, en danska krónan sem fylgir evrunni jafnan að veiktist eilítið eða um 0,01% gagnvart krónunni, niður í 15,512 krónur.

Bandaríkjadalur veiktist einnig, eða um 0,22%, niður í 129,53 króna sölugengi, en japanska jenið og svissneski frankinn veiktust um 0,12%, niður í 1,2409 króna sölugengi annars vegar og 145,94 króna sölugengi hins vegar.

Breska sterlingspundið styrktist hins vegar, eða um 0,31%, upp í 177,90 króna sölugengi, sem og norska krónan, en hún styrktist nú um 0,14%, upp í 15,168 króna sölugengi.