Jóhann Benediktsson var nýlega ráðinn markaðsstjóri Icelandair í Norður-Ameríku. Hann hefur starfað hjá fyrirtækinu síðustu ár, nú síðast sem markaðsstjóri þess í Skandinavíu. Jóhann útskrifaðist með B.Sc. í alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2003 og með M.Sc. gráðu í sama fagi frá Copenhagen Business School árið 2006.

Jóhann mun hefja störf í Bandaríkjunum um næstu mánaðamót, en þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans var hann staddur á ferðalagi á leið til Boston til þess að kynna sér nýja starfið. „Ég verð út vikuna hér í Boston þar sem ég hitti fráfarandi markaðsstjóra. Við þurfum að fara yfir málin áður en hann hættir. Ég byrja um mánaðamótin en verð svona fram og til baka til að byrja með. Við þurfum að klára flutninga og finna húsnæði í borginni,“ segir Jóhann.

Hann segir starfið leggjast mjög vel í sig. „Þetta er mjög spennandi. Maður er búinn að vera í Skandinavíu í sjö ár og það er bara jákvætt að henda sér aftur út í djúpu laugina og prófa eitthvað nýtt. Núna er Ameríka stærsta markaðssvæðið okkar svo það er mjög spennandi að taka þátt í þeim vexti. Þetta er risamarkaður.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .