Ísgarðar ehf., félag Pálma Jónssonar, og Hnetutoppur ehf. komust á þriðjudag að samkomulagi um kaup fyrrnefnda félagsins á 89 prósenta hlut í Emmessís ehf. „Það byrjuðu þreifingar í þessa átt síðastliðið haust. Allt í allt tók ferlið um sjö mánuði,“ segir Pálmi spurður um aðdraganda viðskiptanna.

Tilkynnt var um kaupin á miðvikudag. Í tilkynningunni kemur fram að kaupverðið hafi þegar verið greitt en upphæðin er trúnaðarmál. Félag í eigu Gyðu Dan Johansen mun áfram eiga níu prósenta hlut í Emmessís en afgangurinn af hlutafénu er í eigu félagsins sjálfs. Stjórn verður skipuð áðurnefndum Pálma og Gyðu auk lögmannsins Hildar Leifsdóttur.

Aftur í heimahagana

„Það má að vissu leyti segja að með þessu sé ég að snúa aftur á gamlar ættarslóðir,“ segir Pálmi. Á hann þar við ísverslunina Ísborg sem afi hans og alnafni, Pálmi Jónsson, stofnaði í félagi við Steingrím Hermannsson, síðar forsætisráðherra, og fleiri um miðbik sjötta áratugar síðustu aldar.

Á þeim tíma dugði ekki að fá góða hugmynd og ýta rekstri úr vör því innflutningur á tækjum og tólum var háður duttlungum yfirvalda hverju sinni. Í upphafi reyndu þeir félagar að flytja vélar til ísgerðar inn frá Bandaríkjunum en lentu ítrekað á vegg. Datt þeim þá í hug krókur á móti bragði, skráðu vélarnar sem kæliskápa og komu þeim þannig inn í landið. Þegar aðrir ætluðu að gera slíkt hið sama og hefja samkeppni við Ísborg leist þeim ekki á blikuna og kærðu afgreiðslu á innflutningsleyfinu til ráðuneytisins!

Reksturinn var blómlegur, svo blómlegur að í Frjálsri þjóð í maí 1957 birtist grein undir fyrirsögninni „Mjólkurísbararekstur í stað togaraútgerðar“ enda spruttu ísbúðir upp eins og gorkúlur. Varð það enda úr að Mjólkursamsalan tók á endanum yfir markaðinn. Ísborg spilaði þannig stóran þátt í stofnun Emmessíss,“ segir Pálmi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .