Félag í eigu stofnenda Íslenska gámafélagsins, stjórnarformannsins Jóns Þóris Frantzsonar og Ólafs Thordersen, hefur fest kaup á meirihluta hlutafjár í félaginu og dótturfélagi þess, Vélamiðstöðvarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Samkvæmt tilkynningunni er kaupverðið trúnaðarmál.

Samfara kaupunum hefur Jón Þórir tekið aftur við sem forstjóri félagsins og Ólafur við stöðu aðstoðarforstjóra, en hann var áður framkvæmdastjóri þjónustusviðs Íslenska gámafélagsins. Eftir viðskiptin eru þeir Jón Þórir Frantzson og Ólafur Thordersen jafnframt stærstu einstöku hluthafar félagsins.

Söluferli Íslenska gámafélagsins hófst í sumar þegar boðnir voru til sölu allir hlutir í félaginu í eigu eignarhaldsfélagsins Gufuness og framtakssjóðsins Auðar I slf. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku hafði umsjón með söluferlinu.

Í tilkynningunni vegna kaupanna segir Jón Þórir:

„Þessi niðurstaða er mér mikið ánægjuefni og má kannski segja að fyrirtækið sé komið aftur heim, í hendur okkar sem stóðu að stofnun þess á sínum tíma. Ég hlakka til að halda áfram því góða og mikilvæga starfi sem unnið er hjá Íslenska gámafélaginu og vinna að frekari framgangi og uppbyggingu félagsins, með því góða fólki sem hér starfar.“