Landsframleiðsla dróst saman um 0,1% í Frakklandi á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt upplýsingum frönsku hagstofunnar. Samdrátturinn kemur í kjölfar 0,5% hagavaxtar á öðrum ársfjórðungi. Almennt er kreppa sögð skollin á þegar landsframleiðsla dregst saman tvö ársfjórðunga í röð. Þegar vöxtur mældist í hagkerfinu um mitt ár þá var efnahagslífið að leita upp á við eftir kreppuna sem hrjáð hefur evruríkin.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) bendir á að samdrátturinn í Frakklandi sé meiri en í nágrannaríkinu Þýskalandi. Þar mældist 0,3% hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi. Hann var 0,7% á öðrum ársfjórðungi.

Almennt var ekki reiknað með því að hagvöxturinn yrði til langframa, að sögn BBC. Mestu munar um að útflutningur dróst saman um 1,5% á þriðja ársfjórðungi og fjárfestingar í atvinnulífinu um 0,6%.Pierra Moscovici, fjármálaráðherra Frakkar, reiknar þrátt fyrir þetta með 0,1-0,2% hagvexti á árinu öllu.