Þor­steinn Víg­lunds­son hef­ur verið ráðinn for­stjóri Eign­ar­halds­fé­lags­ins Horn­steins ehf. og hefur störf þann 16. apríl. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu en í morgun greindi Þorsteinn frá því að hann hefði sagt af sér þingmennsku frá og með 14. apríl.

Horn­steinn, sem er í eigu Heidelberg og Íslenskra jarðefna, á og rek­ur þrjú dótt­ur­fé­lög sem starfa við öfl­un hrá­efna, fram­leiðslu, sölu og þjón­ustu á bygg­ing­ar­markaði og við mann­virkja­gerð á Íslandi. Fyr­ir­tæk­in eru Björg­un ehf., BM Vallá ehf. og Sements­verk­smiðjan ehf. Samtals vinna um 200 manns hjá félögunum þremur.

Þor­steinn þekkir vel til BM Vallár. Hann var for­stjóri fyrirtækisins á ár­un­um 2002 til 2010 og faðir hans, Víglundur Þorsteinsson heitinn, var framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður félagsins á árunum 1971 til 2010. Þorsteinn var framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda frá 2010 til 2013 og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins 2013 til 2016. Á árunum 2004 til 2010 átti hann sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins.

Þorsteinn hefur setið á þingi fyrir Viðreisn frá árinu 2016. Hann var félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2017 og er varaformaður Viðreisnar.