Innheimtuleyfi frá Fjármálaeftirlitinu (FME) var afturkallað að beiðni stjórnar Alskila innheimtuþjónustu, að því er segir á heimasíðu fyrirtækisins. FME tilkynnti í dag að að það hafi afturkallað innheimtuleyfi félagsins vegna breytinga á eignarhaldi félagsins. Féllagið heyrir nú undir eftirlit úrskurðarnefndar lögmanna.

Í tilkynningu Alskila segir að aðeins sé um formbreytingu að ræða sem hafi engin áhrif á starfsemi félagsins. „Eignarhald Alskila hf. tók breytingum í júní 2011, sem gerir félaginu kleyft að starfa undir eftirliti úrskurðarnefndar lögmanna í stað FME. Innheimtuleyfi FME var afturkallað að beiðni stjórnar Alskila hf. vegna framgreindra breytinga.

Tekið skal skýrt fram að með afturköllun innheimtuleyfis frá FME er aðeins um formbreytingu að ræða sem hefur engin áhrif á starfsemi félagsins eða þær kröfur sem gerðar eru til félagsins og starfa þess,“ segir á vefsíðu Alskila.