Stjórn samtaka afurðarstöðva í mjólkuriðnaði (SAM) hefur skorað skriflega á aðildarfélög sín að segja sig úr Samtökum iðnaðarins. Þetta kemur fram á í frétt á heimasíðu Bændablaðsins. Þar segir einnig að helsta ástæðan fyrir tilmælunum sé óánægja stjórnar SAM með stuðning Samtaka iðnaðarins við aðild að Evrópusambandinu.

Bréfið var sent aðildarfélögunum í dag. Verði þau við tilmælunum þá mun það einnig þýða sjálfkrafa úrsögn þeirra allra úr Samtökum atvinnulífsins. Í frétt Bændablaðsins er rætt við Magnús Ólafsson, formann SAM. Þar segir hann samtökin ekki hafa áhuga á því að ganga úr Samtökum atvinnulífsins heldur vilji fá beina aðild að þeim. „Við höfum alltaf verið ókátir með þetta, við áttum beina aðild að bæði Vinnumálasambandinu og Vinnuveitendasamtökunum og teljum okkur ekki eiga sérstaka samleið með Samtökum iðnaðarins. Það þýðir samt ekki að við viljum ganga úr Samtökum atvinnulífsins, á því höfum við engan áhuga“.