Magnús Ragnarsson, nýráðinn aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar mennta- og menningamálaráðherra, segist koma ágætlega undirbúinn í nýtt starf. Hann hóf störf í dag.

Magnús segist aldrei hafa unnið í starfi sem þessu en hann hafi unnið verkefni sem sneru að ráðuneytinu. Til dæmis hafi hann unnið fyrir stjórn Listamannalauna. Þá hefur Magnús einnig verið sjónvarpsstjóri Skjás eins, en málefni þess heyra undir ráðuneytið.

Sigríður Hallgrímsdóttir var ráðinn aðstoðarmaður Illuga eftir síðustu kosningar og mun starfa þar áfram. Magnús segist ekki telja að þau muni skipta með sér verkum. „Ég held að það verði engin bein verkskipting þannig. Það eru bara verkefni hvers dags sem hafa forgang,“ segir hann. „Ég hef kannski meiri bakgrunn í menningargeiranum en við skiptum þessu samt ekki í menntamál annars vegar og menningarmál hins vegar,“ bætir hann við.