*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Innlent 28. desember 2019 17:02

Ágætur gangur hjá fjarskiptafélögunum

Sameining og niðurfærsla hjá stóru félögunum skekkti uppgjör síðasta árs. Samanlögð velta nam 61 milljarði.

Júlíus Þór Halldórsson
vb.is

Þokkalegur vöxtur og ágætis hagnaður var á rekstri fjarskipta- og dreifikerfisfyrirtækja á síðasta ári. Tveir atburðir skekkja þó tölurnar verulega; samruni Vodafone og 365 undir nafninu Sýn, sem jók umfang sameinaðs félags verulega, og 3 milljarða króna bókfært tap Mílu og þar með Símans vegna niðurfærslu viðskiptavildar hins fyrrnefnda.

Síminn ennþá stærstur
Þrátt fyrir rúman 50% tekjuvöxt Sýnar (áður Vodafone) milli áranna 2017 og 2018 í kjölfar kaupanna á 365, er Síminn enn stærstur á fjarskiptamarkaði með 28,5 milljarða króna veltu í fyrra, svo til óbreytta frá árinu áður. Sýn er þó ekki ýkja langt undan, en næst kemur Nova, og lestina rekur Hringdu sem er langtum minnst. Hafa verður þó í huga að bæði Síminn og Sýn reka fjölmiðlunardeildir auk fjarskiptahlutans, ólíkt minni félögunum.

Minni fyrirtækin virðast þó vera að sækja í sig veðrið; tekjur Nova uxu um 13% milli ára, og Hringdu bætti 36% við sig. Nova hagnaðist auk þess mest af fjarskiptafélögunum fjórum, um hátt í 1,2 milljarða eftir skatta, sem þó var lækkun um 18,6% milli ára.

Brösótt samrunaferli Sýnar
Ástæður lakari afkomu Sýnar í fyrra voru hins vegar áþreifanlegri. Sýn varð til við kaup fjarskiptafyrirtækisins Vodafone á fjölmiðlafyrirtækinu 365, sem gengu endanlega í gegn þann 1. desember 2017. Í tilkynningu við undirritun samninga í mars það ár kom fram að sameinað félag myndi skila um 5 milljarða rekstrarhagnaði (EBITDA) þegar samlegðaráhrif væru að fullu komin fram.

Afkoman í eðlilegt horf
Tekjur Símans og Sýnar – sem bæði eru skráð í Kauphöllina – hafa verið nokkuð svipaðar og árið áður á fyrsta árshelmingi. Hagnaður Símans er tæpum fimmtungi lægri, en hagnaður Sýnar hefur rúmlega tífaldast, enda lítill sem enginn, miðað við stærð fyrirtækisins, í fyrra.

Sökum verri afkomu beggja stóru félaganna en þau eiga að venjast í fyrra er Nova með langtum mestan hagnað fjarskiptafélaganna, þrátt fyrir hátt í fimmtungssamdrátt milli ára.

Nova var einnig með hæst eiginfjárhlutfall um síðustu áramót, 67%, samanborið við 60% hjá Símanum, 40% hjá Sýn og 23% hjá Hringdu. Hringdu er raunar algerlega sér á báti hvað varðar efnahagsreikning. Á meðan Nova var með 4,3 milljarða eigið fé og stóru félögin margfalt það, nam eigið fé Hringdu 61 milljón króna, og heildareignir þess 263 milljónum.

Aukin velta en minni hagnaður
Samanlögð velta félaganna fjögurra nam 61 milljarði í fyrra og óx um 18% milli ára, en hækkun Sýnar stóð undir um 84% þess vaxtar. Sín á milli högnuðust félögin um 1,9 milljarða króna, sem er 66% samdráttur milli ára, en bróðurpartur hans er tilkominn vegna afskriftar viðskiptavildar Mílu. Sé hann undanþeginn dróst hagnaður saman um 13% milli ára.

Samanlagt eigið fé félaganna nam rúmum 50 milljörðum og var svo til óbreytt milli ára, og eiginfjárhlutfall 54%. Ársverk voru tæplega 1.500 og fjölgaði nokkuð myndarlega, aðallega vegna fjölgunar hjá Sýn, en lítil breyting varð hjá hinum félögunum.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.

Stikkorð: Síminn Nova Hringdu Sýn Fjarskiptafélög