Mál Útlendingastofnunar gegn fyrrverandi leigusala verður tekið fyrir í Hæstarétti. Rétturinn hefur fallist á beiðni um slíkt á þeim grunni að ágallar hafi verið á dómi Landsréttar. Fátítt er að rétturinn fallist á úrlausn Landsréttar hafi verið stöngin út.

Í júní 2017 gerði Útlendingastofnun leigusamning um eign uppi á Höfða og hugsist starfrækja þar gistiskýli fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Treglega gekk að afla tilskilinna leyfa fyrir starfseminni en loksins þegar það tókst fóru eigendur annarra eignarhluta í fasteigninni fram á lögbann við starfseminni. Var það samþykkt.

Þremur mánuðum síðar rifti Útlendingastofnun leigusamningnum vegna lögbannsins en leigusalinn hafnaði riftuninni og höfðaði mál til innheimtu vangoldinnar leigu. Útlendingastofnun gagnstefndi og krafðist riftunar á samningnum.

Í héraði var fallist á kröfu Útlendingastofnunar en Landsréttur sneri þeim dómi við. Vissulega hefði réttur til riftunar verið til staðar en Útlendingastofnun hefði ekki lýst yfir riftun innan átta vikna lögmælts frests. Því hefði riftunin ekki tekið gildi.

Leyfisbeiðni sína byggði Útlendingastofnun á því að gagnaðili hefði hvorki í aðal- né gagnsök byggt á því að réttur til riftunar hefði fallið niður sökum tómlætis. Enn fremur fáist ýmsar aðrar forsendur dómsins ekki staðist.

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að að virtum gögnum málsins kunni að vera ágallar á dómi Landsréttar og þá svo slíkir að rétt sé að samþykkja beiðni um áfrýjun. Frá fjölgun dómstiga er hægt að telja á fingrum annarar handar þau skipti þar sem fallist er á áfrýjun á þeim grunni.