Lausafjárkrísan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur að öllum líkindum bundið enda á ævintýralega hraðan vöxt Kaupþings [ KAUP ] á erlendum mörkðum síðastliðin fimm ár, að því er fram kemur í frétt Wall Street Journal. Í fréttinni segir að uppgangur íslensku bankanna hafi verið með ólíkindum síðustu árin en að nú hafi aðstæður breyst og að það komi til með að setja strik í reikninginn. Haft er eftir Hreiðari Már Sigurðssyni, bankastjóra Kaupþings, að aðgengi að ódýru lánsfé sé senn á enda. “Vonandi mun slíkt tímabil koma aftur”, segir Hreiðar.

Að sögn Hreiðars grundvallaðist útrás íslensku bankanna á tveimur þáttum: Í fyrsta lagi sökum frjálsvæðingar á íslensku efnahagslífi á tíunda áratugnum og í öðru lagi hafi vextir á alþjóðamörkuðum verið lágir.

Hreiðar segir í viðtalinu að íslensku bankarnir hafi nýtt sér aðgengi að ódýru lánsfé á alþjóðamarkaði undanfarin ár en að aðstæður breyst í kjölfar hrunsins á bandaríska húsnæðismarkaðinum. Hann segir jafnframt að ekki standi til í bráð að fara út í sambærileg kaup eins og á hollenska bankanum NIBC, en kaupin á honum eru stærstu viðskipti Kaupþings til þessa og hljóðuðu upp á 3 milljarða evra. “Það er komið nóg í bili og nú ætlum við að einbeita okkur að því að ljúka samruna Kaupþings og NIBC”

Í frétt Wall Street Journal er bent á að íslensku bankarnir sé mjög háðir erlendum fjármagnsmörkuðum í stað þessa að geta reitt sig á fjármagn í formi innlána. Hlutfall innlána á móti útlánum hjá Kaupþings er 33%, borið saman við 66% hjá sænska bankanum SEB.