Samkvæmt stjórnarfrumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi er lagt til að söluaðilum olíu verði óheimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðsludælum nema viðskiptavinur greiði fyrir eldsneytið með viðskiptakorti söluaðilans.  Í greinargerð segir að aðgengi að gjaldfrjálsri litaðri olíu sé of mikið. Á eldsneytisstöðvum sé lituð olía nær undantekningarlaust seld í sjálfsafgreiðslu.

„Verði tillagan að lögum verður ekki hægt að kaupa litaða olíu í sjálfsafgreiðslu með almennum viðskiptakortum, debet- eða kreditkortum eða peningum. Einungis verður því hægt að kaupa eldsneyti sem þetta með viðskiptakorti eða dælulykli þar sem opna þarf sérstaklega fyrir þessa tegund viðskipta. Lítið sem ekkert óhagræði hlýst af þessu, hvorki fyrir kaupendur eldsneytis né olíufélögin, enda er búnaðurinn þegar fyrir hendi. Þá má geta þess að eftirlit ríkisskattstjóra með misnotkun verður mun auðveldara," segir í greinargerð.

Könnun ríkisskattstjóra árið 2008 benti til þess að mikið væri dælt af olíu á einkabíla. Skoðaðar voru tugir þúsunda færslna og í 74% tilvika voru keyptir innan við 80 lítrar af litaðri olíu. Mjög algeng tala var 40–60 lítrar í hvert skipti, magn sem vekur upp grunsemdir um að verið sé að dæla litaðri olíu á einkabíla en ekki stórar vinnuvélar. Séu þessar tölur uppreiknaðar miðað við fjárhæð olíugjalds í dag má ætla að ríkissjóður verði af um 160 millj. kr. árlega vegna misnotkunar á litaðri olíu samkvæmt greinargerð með frumvarpinu.