Húsleitir og handtökur á vegum embætti sérstaks saksóknara sem fram fóru í dag eru meðal annars í tengslum við rannsókn þess á hinu svokallaða Stím-máli, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Auk þess eru fleiri mál undirliggjandi í rannsókninni sem snúa meðal annars að meintri markaðsmisnotkun Glitnis á sínum tíma. Von er á fréttatilkynningu frá sérstökum saksóknara síðar í dag þar sem skýrara ljósi verður varpað á málið.

Stím-málið snýst um það að Stím keypti hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir tæplega 25 milljarða króna þann 14. nóvember 2007 af Glitni. Um 20 milljarðar króna voru fengnir að láni hjá Glitni og viðskiptin voru teiknuð upp af starfsmönnum bankans. Vildarviðskiptavinum var síðan boðið að leggja fram 10% eiginfjárframlag og vera með í Stím.

Með þessu var Glitnir að tæma hina svokölluðu veltubók sína, en bankinn mátti ekki eiga meira en 5% hlut í sjálfum sér. Þar sem engin eftirspurn var eftir svona magni af hlutabréfum í félögunum tveimur voru búin til sýndarviðskipti til að virði hlutabréfanna myndu ekki lækka.

Stím-málið er einnig hluti af stefnu slitastjórnar Glitnis gegn sjö einstaklingum og PricewaterhouseCoopers í New York. Þar fer slitastjórnin fram á 250 milljarða króna skaðabætur vegna þess að Glitnir hafi verið rændur innan frá.