Samkomulag um grunnþætti vegna aðgerða gegn skuldavanda heimilanna lá fyrir í gærkvöldi, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Aðgerðirnar verða að öllum líkindum kynntar í dag. Í samkomulaginu felst meðal annars að veðsetningarhlutfall fasteigna verður lækkað niður í 100-110% af markaðsvirði fasteigna. Það mun þýða tugmilljarða króna afskriftir af fasteignalánum landsmanna hjá bönkum, lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði. Á meðal annarra aðgerða sem gripið verður til er að auka vaxtabætur um allt að sex milljörðum króna.

Ríkið tekur á sig högg Íbúðalánasjóðs

Íslenska ríkið mun taka á sig högg Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar á fjáraukalögum fá stjórnvöld heimild til að nota allt að 13 milljarða króna til að bæta sjóðnum upp tap hans vegna samkomulagsins. Langstærstur hluti fasteignalána landsmanna er hjá Íbúðalánasjóði.

Lífeyrissjóðir landsins munu bera tap á niðurfærslu sjóðsfélagslána sem veitt hafa verið til fasteignakaupa. Fulltrúar þeirra funduðu með starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins (FME) í gær til að kanna hvort sjóðirnir hefðu heimild til þess samkvæmt lögum að fara í slíkt endurmat á útistandandi lánum sínum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að FME hafi gefið grænt ljós á það.

Bankarnir munu síðan þurfa að bera tap vegna niðurfærslu fasteignalána sem þeir halda á.

Fundað stíft í gær

Ráðherrar funduðu í gærmorgun með þeim aðilum sem komið hafa að vinnu um aðgerðir vegna fjárhagsvanda heimilanna. Þeirra á meðal voru forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, ASÍ og Hagsmunasamtaka heimilanna. Ráðherrarnir funduðu síðan með fulltrúum lífeyrissjóðanna í hádeginu og aftur klukkan fjögur síðdegis. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að samkomulag um grunnþætti aðgerðarpakka fyrir skuldsett heimili hafi legið fyrir eftir þann fund.