Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi formaður Samfylkingarinnar, segir að sín stærsta yfirsjón sé sú að hafa ekki gert mun afdráttarlausari kröfur um breytingar á stjórnkerfinu, um meiri fagmennsku og gegnsæi, þegar Samfylkingin efndi til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn vorið 2007.

„Önnur yfirsjón er  að hafa ekki gert kröfu um miklu fastara og ákveðnara taumhald á aðgerðum ríkisins strax og Glitnismálið kom upp.  Aðgerðir voru of fálmkenndar, upplýsingar voru af skornum skammti og framkvæmd tók alltof langan tíma."

Þetta kom fram í upphafsræðu Ingibjargar Sólrúnar á landsfundi flokksins sem er að hefjast. Um sautján hundruð manns taka þátt í fundinum. Flokksmenn hylltu formann sinn með því að rísa úr sætum og klappa, áður en hún hóf mál sitt.

Ingibjörg Sólrún sagði varðandi kröfuna um breytingar í stjórnkerfinu að í Sjálfstæðisflokknum færi auðvald og ríkisvald hönd í hönd. „Hér ríkir kunningjakapítalismi. Sjálfstæðismenn eru ráðandi jafnt í fyrirtækjum sem stjórnkerfi og sú samtrygging sem þannig hefur komist  á leiðir til aga-  og aðhaldsleysis."

Hún sagðist sjálf hafa margítrekað sett þetta fram í opinberri umræðu á liðnum árum „og þessvegna átti ég og við öll í Samfylkingunni að vita þetta," sagði hún.

„Það sem sló hins vegar ryki í augu okkar voru þær mannabreytingar sem þá höfðu orðið í forystu flokksins. Nýir og geðþekkari einstaklingar höfðu tekið við stjórninni og við bundum vonir við þá. Við horfðum framhjá því  við stjórnarmyndunina að vandamálið er ekki fólkið heldur flokkurinn. Hér höfum við bara við okkur sjálf að sakast."

Ákveðnir hópar handvaldir af ráðherrum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks

Ingibjörg Sólrún fór í ræðu sinni yfir ástæður fjármálahrunsins og kreppunar. Hún nefndi þar meðal annars til sögunnar einkavæðingu bankanna og þá staðreynd að dreifð eignaraðild hefði þar verið látin lönd og leið. Ákveðnir hópar hefðu verið handvaldir af ráðherrum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að eignast ráðandi hlut í bönkunum.

Þá sagði hún m.a. að  eigendur og helstu stjórnendur bankanna hafi verið of gráðugir og of reynslulitlir í bankamálum.  „Þeir ætluðu að sigra heiminn en horfðust ekki í augu við að það tekst engum sem ekki á sér öflugan bakhjarl," sagði hún.