„Ókostur aðgerðar ríkisstjórnarinnar er að í henni felst ekki lausn á gjaldeyriskreppunni. Hún mun hjálpa einhverjum fjármálastofnunum að fjármagna sig í krónum sem er jákvætt,“ segir Ársæll Valfells, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands í samtali við Viðskiptablaðið.

Ársæll segir að núverandi kreppa sé þó mest tengd skorti á gjaldeyri.

„Aðgerðin mun að einhverju leyti minnka frostið á húsnæðismarkaði til skemmri tíma. Einnig mun hún gera jöklabréfaeigendum kleift að framlengja í vaxtamunarviðskiptunum með því fresta innlausn þeirra á krónum fyrir gjaldeyri,“ segir Ársæll.

„Vandinn sem er tilkominn vegna innstreymis vaxtarmunarviðskipa verður ekki leystur með því framlengja í þeim. Hættan er sú að efnahagsvandinn aukist ef vextir lækka ekki, því ekkert atvinnulíf getur þrifist við núverandi vaxtastig.“

Hann segir markaðsaðila enn bíða eftir aðgerðum til að koma gjaldeyrismálunum í lag því þar liggi stærsti vandi efnahagslífsins.