"Undanfarnar vikur hefur átt sér stað fjölgun vinnuslysa hjá ítalska verktakanum Impregilo sem annast framkvæmdir við tvo stærstu verkþætti virkjunarinnar, byggingu Kárahnjúkastíflu og gerð aðrennslisganga. Á fundi sínum í morgun lýsti stjórn Landsvirkjunar áhyggjum sínum af þessari þróun og fól forstjóra fyrirtækisins að beina því til verktaka og eftirlitsaðila að tryggja að farið verði í einu og öllu eftir þeim reglum og kröfum sem gerðar eru til öryggis á vinnustað,? segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Í tilkynningunni kemur fram að ráðgjafahópurinn VIJV, undir forystu breska fyrirtækisins Mott McDonald, hafi eftirlit með framkvæmdum á svæðinu fyrir hönd Landsvirkjunar og að nú þegar hafi verið farið ítarlega yfir öryggismál og öryggiseftirlit með yfirmönnum verktakans.

?Impregilo hefur þegar tilkynnt um aðgerðir svo sem frekari öryggisnámskeið fyrir verkstjóra, fjölgun öryggisvarða, skyndiskoðanir á ástandi öryggismála á verkstöðum, dreifibréf um öryggismál til allra starfsmanna, kerfi viðurkenninga vegna árangurs í öryggismálum, fjölgun öryggisæfinga, öryggisfundi á verkstöðum og fleira,? segir í tilkynningunni.