Greiningardeild Landsbankans telur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni ekki koma í veg fyrir lækkun fasteignaverðs.

Í Vegvísi Landsbankans segir að ástandið á íbúðamarkaði undanfarið sé dæmi um markaðsbrest, þar sem aðgengi íbúðakaupenda að lánsfé hafi verið mjög takmarkað.

„Undanfarið hefur aðgengi íbúðakaupenda að lánsfé verið mjög takmarkað, þar sem þak er á lánum Íbúðalánasjóðs og bankar hafa verið tregir til útlána. Þetta ástand er í raun dæmi um markaðsbrest sem gæti í versta falli hrundið af stað lækkun eignaverðs langt umfram það sem ella þyrfti til að ná jafnvægi á fasteignamarkaði,“ segir í Vegvísi.

Landsbankinn segir að þrátt fyrir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar geti komið í veg fyrir þá þróun sem að ofan greinir, þá munu þær ekki koma í veg fyrir verðlækkanir sem rekja má til offramboðs nýrra íbúða eða minnkandi ráðstöfunartekna.

„Að okkar mati munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar því draga úr líkum á miklu lækkunum en við gerum þó áfram ráð fyrir hóflegri lækkun íbúðaverðs á árinu,“ segir að lokum í Vegvísi.