Ég var nú ekki lengi að hugsa mig um eftir að Björgólfur ákvað að hætta,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins (SA). Hann átti von á því að fleiri myndu bjóða sig fram en þess í stað var hann sjálfkjörinn á aðalfundi SA á dögunum.

„Ég hef tíma í þetta, og mig langar til þess að sinna þessu og gera þetta vel. Ég hef mikinn áhuga á að það takist að ná saman á vinnumarkaðnum heilt yfir og til dæmis að lokið verði við Salek-samkomulagið, sem myndi skapa þann stöðugleika sem ég held að allir séu að biðja um þegar upp er staðið.

Því það sem skiptir máli er að geta horft til langs tíma og vita að lífið og umhverfið umbyltist ekki frá degi til dags.“

Eyjólfur Árni hefur komið víða við á sínum langa ferli, en hann starfaði lengst af hjá Hönnun sem síðar varð verkfræðistofan Mannvit þar sem hann var aðstoðarforstjóri og forstjóri um 20 ára skeið.

„Ég fór nú langa leið í minni menntun, fór á sínum tíma í gegnum iðnnám þar sem ég lærði húsasmíði og fór síðan í byggingatækifræði í Tækniskóla Íslands.

Síðan fer ég vestur um haf til Bandaríkjanna, í Háskólann í Missouri-ríki, en þar vorum við fjölskyldan öll í sex ár þar sem ég tók meistara- og doktorsgráðu í byggingaverkfræði,“ segir Eyjólfur en upphaflega hafði hann ekki ætlað sér að fara svo langt í sínu námi.

„Þannig fór það nú samt. Námsárin voru frábær tími, en ég fékk Rótarý styrk sem dugði okkur fyrsta árið og svo kenndi maður við skólann til að hafa aðeins tekjur í sig og á.

Við nýttum tímann vel til að ferðast um miðríkin sem við þekkjum því vel, en það sem kom mest á óvart þarna úti miðað við það sem maður hafði kynnst hérna heima, var aginn í samfélaginu.

Það var agi í öllum ákvörðunum og skipulagi fólks og svo gekk maður að sama verðlagi öll árin og það hefur ekki breyst mikið síðan.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .