*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 11. apríl 2019 15:52

Agjörlega óvíst með heimtur úr búi Wow

Skiptastjóri segir ekkert liggja fyrir um hvað fáist upp í kröfur þrotabús Wow.

Ritstjórn
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður og annar af tveimur skiptastjórum þrotabús Wow air.
Haraldur Guðjónsson

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús Wow air, segir alveg óvíst hvað skuldabréfaeigendur geti reiknað með að endurheimta af kröfum sínum í búinu. „Á þessum tímapunkti er algjörlega óvíst hvað kemur inn af eignum og algjörlega óvíst hvað forgangskröfur verða háar. Það verður í fyrsta lagi á skiptafundi þann 16. ágúst næstkomandi sem verður tekin afstaða til almennra krafna. Forsendan fyrir því er að búið verði að ganga frá forgangskröfum.”

Fréttablaðið hefur greint frá því að norskt greiningarfyrirtæki hafi verðlagt skuldabréf Wow air á 15% af nafnvirði. Sveinn Andri segist ekki vita hvaðan sú tala sé komin.

„Þetta er vel í lagt 15% en ekki veit ég hvernig þeir hafa fengið þessa tölu út. Ég held að þeir hafi alveg eins getað fyllt út getraunaseðil,” segir Sveinn Andri  

Greint hefur verið frá því að Skúli Mogensen vinni nú að því að stofna nýtt flugfélag á grunni Wow og unnið sé í kapp við tímann til þess að ná gömlu leiguflugvél Wow. Svein Andri segir þessa samninga og umleitanir ekkert koma skiptabúinu við. 

„Þeir sem hafa eru að reyna að stofna nýtt félag á grundvelli gamla félagsins hafa verið að reyna ná til sín einhverjum af leiguflugvélum Wow. Eigendur vélanna hafa væntanlega veitt þeim einhvern tímafrest til þess að klára viðskiptin, en þeir sjá mögulega tækifæri til þess að spara kostnað í því að koma þeim aftur í rekstur í núverandi mynd, til að mynda þurfa þeir þá ekki að breyta vélunum þær fyrir nýja leigjendur. Þessir samningar eru ekki eign þrotabúsins því það hefur skilað öllum vélunum og þessir mögulegu samningar hafa ekkert með búið að gera,” segir Sveinn Andri Sveinsson.