Agnar Hansson, fyrrverandi forstjóri Icebank, hefur verið ráðinn forstöðumaður markaðsviðskipta hjá H.F. Verðbréfum.

Að sögn Halldórs Friðriks Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra félagsins, mun Agnar hefja störf innan skamms. Halldór staðfesti einnig að hann ætti í samstarfi við Þórarin Sveinsson, fyrrverandi forstöðumann eignastýringar hjá Kaupþingi, en vildi ekki tilgreina í hverju samstarfið fælist að öðru leyti en því að Þórarinn ynni að útfærslu á viðskiptahugmynd.

H.F. Verðbréf hf. var stofnað 16. desember 2003 og fékk starfsleyfi til verðbréfamiðlunar í febrúar 2004. Í upphafi beindist starfsemin aðallega að miðlun hlutabréfa í utanþingsviðskiptum á milli fagfjárfesta. Í mars 2007 fékk fyrirtækið starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki.