© Aðsend mynd (AÐSEND)

Agnar Kofoed-Hansen hefur gengið til liðs við ráðgjafafyrirtækið Intellecta. Hann mun starfa með ráðgjafateymi Intellecta og sérhæfir sig í fjármálaráðgjöf, stjórnendaráðgjöf, samningatækni og verkefnastjórnun.

Fram kemur í tilkynningu að Agnar lauk prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1981. Hann lauk meistaraprófi M.Sc. í rekstrarverkfræði frá DtU í Danmörku árið 1983 og hefur lagt stund á framhaldsnám í fjármálagreiningu og frumkvöðlafræðum m.a. við MIT Sloan School of Management í Bandaríkjunum. Agnar hlaut löggildingu sem verðbréfamiðlari árið 1991. Á árunum frá 1989 til 2000 var hann m.a. forstöðumaður Verðbréfasviðs Kaupþings hf., framkvæmdastjóri hjá Upplýsingaþjónustunni ehf. og stjórnarmaður og forstöðumaður skýrsludeildar hjá Creditinfo Lánstrausti.

Agnar starfaði sem framkvæmdastjóri SPRON Factoring hf. frá 2000 til 2007 og rann rekstur þess félags síðar inn í Arion banka. Undanfarin rúm 5 ár hefur Agnar starfað sem framkvæmdastjóri fjármála og tölvumála hjá HRV ehf. og setið í stjórn Arion banka fyrir hönd Bankasýslu ríkisins frá því í mars 2011.

Agnar er kvæntur Baldínu Hildu Ólafsdóttur og eiga þau fimm börn.