AGR – Aðgerðargreining ehf. hefur undanfarið selt tvö stór kerfi til aðila í Bretlandi að sögn Hauks Hannessonar, framkvæmdastjóra AGR. Meðal annars hafa þeir selt félagi sem þjónustar 50 skemmtiferðaskip og öðru félagi sem þjónustar 240 gæludýraverslanir í Bretlandi. AGR hefur fjölgað starfsmönnum sínum á árinu úr 10 í 16.

Að sögn Hauks skiptir þarna mestu að Frumtak kom inn í hluthafahóp félagsins í byrjun árs með 100 milljóna króna hlutafjárframlag sem hefur nýst til markaðssóknar. "Við fórum að geta gert hluti sem við gátum ekki gert vegna þröngrar fjárhagsstöðu," sagði Haukur. AGS selur búnað í 12 löndum en það hefur þróað aðferðir og hugbúnað fyrir alþjóðlegan markað. Helsta afurð fyrirtækisins er AGR Inventory Optimiser sem innleitt hefur verið víða um heim. Grunnþróun AGR hefur alfarið farið fram hérlendis í samstarfi við fyrirtæki í vörudreifingu, framleiðslu og verslun. Fyrirtækið rekur tvær skrifstofur undir merkjum AGR í Bretlandi og Danmörku.