AGR og Reynd hafa nýverið sameinað krafta sína til að bjóða Dynamics NAV viðskiptalausnir samhliða vörustjórnunarlausnum AGR á innlendan og erlendan markað. Sameinað félag verður með starfsemi í Bretlandi og Danmörku en öll þróun fer fram hér á landi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Með stofnun AGR-Reyndar erum við að sameina helstu sérfræðinga landsins í vörustjórnun við einhverja reynslumestu sérfræðinga landsins í innleiðingu og þjónustu á NAV viðskiptahugbúnaðnum. Sérstaða okkar byggir á því að bjóða fyrsta flokks vörustjórnunarþekkingu til viðbótar við öfluga þjónustu á Dynamics NAV,“ segir Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri AGR-Reyndar.

Frá árinu 1997 hefur AGR sérhæft sig í hugbúnaðargerð og ráðgjöf á sviði aðfangastýringar. Sérstaða Reyndar byggir á Dynamics NAV viðskiptakerfinu ásamt verslunarlausnum frá LS Retail. Sameinað fyrirtæki mun því geta á einum stað boðið ráðgjöf, innleiðingu og þjónustu á NAV samhliða lausnum og ráðgjöf í vörustjórnun gegnum AGR hugbúnaðinn.

Meirihluti tekna félagsins kemur erlendis frá í gegnum fjölbreyttan hóp viðskiptavina, en fyrirtækið þjónustar meðal annars alþjóðlega viðskiptavini á borð við Le Creuset, BoConcept, IKEA í Saudí Arabíu, Best Denki í Singapore ásamt meirihluta þeirra skemmtiferðaskipa sem koma til landsins.