Árið 1926 hóf Sjóklæðagerðin hf. – 66°Norður starfsemi sína á Súgandafirði. Nú í dag, 82 árum síðar, framleiðir fyrirtækið og selur útivistar-, sjó- og vinnufatnað og selur til fjölmargra landa undir merkjum 66°North.

Halldór Gunnar Eyjólfsson, forstjóri 66°Norður, segir útflutning fyrirtækisins hafa hafist fyrir 15 árum með útflutningi á sjófatnaði til Bandaríkjanna og Bretlands.

Undanfarin fimm ár hafi hins vegar mikil áhersla verið lögð á útflutning á útivistarfatnaði.

„Fyrirtækið hefur verið að feta fyrstu sporin undanfarin ár. Við erum í raun enn að slíta barnsskónum en möguleikarnir eru miklir. Við erum aðeins komin með mjög lítinn hlut af markaðnum en getum vaxið miklu meira.“

Þrátt fyrir áherslu á útivistarfatnað undanfarin ár liggja rætur fyrirtækisins að sögn Halldórs í sjófatnaði.

„Framleiðsla á sjófatnaði er orðin 82 ára. Það getur enginn hermt eftir sögu okkar. Þegar við kynnum þessar vörur okkar úti í heimi taka allir eftir sögunni. Vörurnar hafa klætt Íslendinga öll þessi ár á eyju í miðju Atlantshafi og fyrirtækin úti þekkja veðurfar hér og aðstæður.“

Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mikill síðustu árin. Milli áranna 2004 og 2007 fór veltan úr 1 milljarði í 2 milljarða. Hann segir fyrirtækið hafa haft það markmið að vaxa um 15-20% á ári en raunin hafi verið sú að vöxturinn hafi oft verið miklu meiri.

„Við erum núna að skoða uppbygginguna á útflutningi okkar. Hvernig við getum byggt hann betur upp þannig að við getum vaxið verulega erlendis. Sú vinna hefur verið í gangi undanfarnar vikur og verður áfram. Við höfum væntingar til þess að vöxturinn utanlands verði meiri en 15-20%.“

Þrátt fyrir efnahagsþrengingar undanfarna mánuði merkir Halldór engan samdrátt í sölu, hvorki innanlands né erlendis.

„Hins vegar er ljóst að ef langvarandi efnahagskreppa verður almennt er ljóst að við munum finna fyrir því eins og aðrir en í dag gengur reksturinn mjög vel.“

Nánar er fjallað um 66°Norður og Halldór Gunnar Eyjólfsson í viðtali við hann í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.

________________________________________

Nánar er fjallað um 66°Norður og Halldór Gunnar Eyjólfsson í viðtali við hann í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .