Uppstokkun á viðskiptamódeli bresku smásölukeðjunnar Woolworths er þörf ef takast á að snúa rekstri félagins til betri vegar, að mati Arindam Nag, viðskiptablaðamanns hjá Dow Jones fréttastofunni. Fyrirtækið, sem Baugur á á 28% hlut í gegnum Unity-fjárfestingarfélagið, sem einnig er í eigu FL Group, greindi frá því síðastliðinn miðvikudag að hagnaður þess fyrir skatta og óregluleg gjöld hefði lækkað um 62% á síðasta fjárhagsári og nam 21,8 milljörðum punda. Hins vegar skýrðist þessi hagnaður að stórum hluta til - um 9 milljarðir punda - vegna breyttrar uppgjörsaðferðar Woolworths, auk þess sem fjárhagsár fyrirtækisins taldi 53 vikur.

Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki um að hugsanlegt tilboð frá óskráðum fjárfestingarsjóðum í fyrirtækið sé í vændum. Í þeim efnum er einna helst rætt um tilboð frá Baugi enda þótt sérfræðingar hafi ítrekað sagt að þeir hafi efasemdir um að Baugur muni reyna að yfirtaka félagið en hlutur þess í Woolworths um þessar mundir er í kringum 10%.

Nag telur aftur á móti að enda þótt yfirtökutilboð berist frá fjárfestingarsjóði í félagið muni það eitt og sér alls ekki nægja til að leysa þann djúpstæða vanda sem fyrirtækið stendur frammi fyrir. Ef stjórnendur Woolworths koma ekki fram með nýja viðskiptaáætlun þar sem ákveðið er að ráðast í þær nauðsynlegu breytingar að fyrirtækinu verði skipt upp og ákveðnar rekstrareiningar seldar, er jafnvel ólíklegt að viðunandi tilboð muni berast í félagið.

Nag bendir á að það hljóti að vera stjórnendum Woolworths mikið áhyggjuefni að afkoma fyrirtækisins sé verri heldur en hjá flestum samkeppnisaðilum í öllum þeim vörutegundum sem það selur. Einnig er EBITDA framlegðarhlutfall Woolworths aðeins 2,7%, samanborið við 6,8% hlutfall að meðaltali hjá keppinautunum. Það sem skiptir kannski einna mestu máli er að greiðsluflæði af rekstri Woolworths er neikvætt, að sögn Nag. "Það lauk fjárhagsárinu með 27 milljónir punda innistæðu í banka. Fyrirtækið á enn eftir að greiða arðgreiðslur til hluthafa upp á 19,4 milljónir punda." Auk þess hefur Woolworths farið frá því að vera með jákvætt sjóðstreymi á síðasta ári yfir í að vera með hreinar skuldir upp á 113 milljónir punda á þessu ári.

Til að koma rekstri Woolworths á réttan kjöl þarf félagið fyrst að aðgreina sig betur frá keppinautum sínum, að mati Nag. "Það þarf að bæta verslanir fyrirtækisins til muna: eftirsóttar vörur eru ekki alltaf til á lager og þörf er á vinsamlegra starfsfólki með ósvikna þjónustulund." Nig mælir einnig með því að Woolworths beini sjónum sínum í auknum mæli að ákveðnum aldurshópi - til dæmis börnum á aldrinum 1 til 12 ára - en engin smásölukeðja er til í Bretlandi á borð við ToysRus í Bandaríkjunum.

Verðmætasta eign Woolworths er vörumerki þess og það ætti að vera nógu stórt til að hægt sé að snúa rekstri félagins til betri vegar. "Ef Marks & Spencer og ToysRus tókst það, getur Woolworths það einnig. En það þarf að bregðast fljótt við ef það ætlar ekki enda sem enn eitt misheppnað breskt fyrirtæki", segir Nag.