Landsbankinn
Landsbankinn
© BIG (VB MYND/BIG)
Aðalmeðferð í máli Hauks Þórs Haraldssonar, fyrrum framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landsbanka Íslands, gegn þrotabúi bankans á að fara fram næstkomandi mánudag. Um er að ræða ágreiningsmál vegna launakrafna sem Haukur Þór gerði í búið. Samkvæmt kröfuskrá Landsbankans frá því í nóvember 2009 lýsti Haukur Þór alls þremur kröfum í búið að samanlagðri upphæð 147,6 milljónir króna. Hann lýsti öllum kröfunum sem forgangskröfum en því hafnaði slitastjórn bankans.

Haukur Þór var í síðustu viku dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi fyrir fjárdrátt fyrir að hafa millifært 118 milljónir króna af reikningi aflandsfélags í eigu Landsbankans inn á eigin reikning þann 8. október 2008. Hann sagði fyrir dómi að ætlun hans hafi verið sú að bjarga fénu þegar Landsbankinn féll. Haukur Þór hefur áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar.