Deilur um skiptingu þeirra verðmæta sem skapast úr auðlindagreinum Íslands mega ekki standa í vegi fyrir því að arðsemi og framleiðni þeirra sé sem mest. Ný ríkisstjórn og stjórnvöld almennt verða að skapa þær aðstæður sem hámarka verðmæti náttúruafurðanna og koma þannig góðu búi til komandi kynslóða.

Þetta sagði Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, á Viðskiptaþingi ráðsins á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Þingið bar yfirskriftina „Börn náttúrunnar: Framtíð auðlindagreina á Íslandi.“ „Börnin“ sem yfirskrift þingsins vísar til eru sjávarútvegurinn, orkuframleiðsla og ferðaþjónustan.

Sagði Katrín Olga náttúruna hafa getið af sér þessi þrjú börn, sem hafi verið undirstaða útflutnings, verðmætasköpunar og velferðar í landinu. Auðlindageirinn stendur undir 75% af útflutningstekjum landsins og tæplega 25% af landsframleiðslu, og hafa útflutnignstekjur auðlindagreinanna farið stöðugt vaxandi undanfarin ár. Þrátt fyrir það hafi umræðan um auðlindir landsins verið á villigötum.

„Við búum ekki við auðlindabölvun í efnahagslegu samhengi, heldur samfélagslegu. Stærsta barnið, sjávarútvegurinn, hefur verið bitbein ... en fiskveiðikerfi Íslands er til fyrirmyndar. Orkan er miðjubarnið. Hún er ekki með skilgreinda stöðu og upplifir því reglulega tilvistarkreppu. Staða orkugeirans er sterk og myndar sterka undirstöðu fyrir aðrar greinar. Ungbarnið er ferðaþjónustan, með sína vaxtarverki. Hún er undirstöðugrein sem borið hefur uppi efnahagsbata undanfarinna ára,“ sagði Katrín Olga. Sagði hún Ísland standa framarlega í alþjóðlegum samanburði innan allra þessara atvinnugreina.

„Þrátt fyrir þetta þrösum við og deilum um nýtingu, forræði og skiptingu verðmæta. Foreldrar þessara barna verða að koma sér saman um uppeldisaðferðir.“ Staðan væri góð en jafnframt brothætt. Ekki mætti láta slíkar deilur draga úr verðmætasköpun auðlindagreinanna.

Brýnt væri fyrir stjórnvöld að vinna að sátt á vinnumarkaði, sem hefur áhrif á auðlindagreinarnar. „Viðvarandi kjaradeilur og ójafnvægi á vinnumarkaði er stærsta einstaka meinsemd íslensks atvinnulífs, sem þarf að leysa í eitt skipti fyrir öll.“

Einnig þyrftu stjórnvöld að skapa samkeppnishæft skattaumhverfi, fjárfesta í menntun, og sjá almennt til þess að frelsi og skilvirkni sé sem mest í efnahagslífinu.

„Ef marka má umræðuna er kallað eftir nýjum vinnubrögðum. Það er þörf á því að skapa breiðari sátt í samfélaginu og þar eru auðlindagreinarnar efst á dagskrá ... Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld að skapa lóð á vogarskál aukinna sátta ... því okkur ber skylda til að varðveita auðlindirnar okkar til framtíðar til að þær skili sem mestri arðsemi og ánægju fyrir komandi kynslóðir,“ sagði Katrín Olga.