Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er uppi ágreiningur milli Sunshine Press Production ehf. (SPP) og DataCell ehf. (DC) um uppgjör 1,2 milljarðs sem félögin fengu í bætur frá Valitor.

Valitor samdi við félögin tvö í liðinni viku að greiða þeim 1,2 milljarða í bætur en greiðslan er í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá í apríl. Bæturnar eru tilkomnar vegna ólögmætrar riftunar á samkomulagi um greiðslugátt en Valitor lokaði gáttinni árið 2011. Hefur málið verið til meðferðar hjá dómstólum síðan þá. Samkvæmt dómnum fær DC 60 milljónir í sinn hlut en SPP 1.140 milljónir.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að málareksturinn yrði fjármagnaður af DC en rekstur þess reyndist dýrari en menn höfðu ráðgert. Til að mynda afturkallaði DC umboð sitt til Sveins Andra Sveinssonar árið 2015 en hann hélt áfram að reka málið fyrir hönd félagsins allt til ársloka 2018.

„Lögmaðurinn sendi hlægilega háa reikninga fyrir vinnu sem aldrei var innt af hendi. Ef hann skilar góðri vinnu greiði ég slíkt með glöðu geði en ég var ekki að fara að borga tugi þúsunda evra fyrir vinnu sem aldrei var innt af hendi,“ segir Andreas Fink, eigandi DC, við Viðskiptablaðið.

Þegar kastaðist í kekki milli aðila var, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, gripið til þess ráðs að bjóða ýmsum innlendum og erlendum aðilum að koma að fjármögnun málsins gegn því að fá hluta í bótunum. Á vef DV er sagt frá því að umræddir aðilar eigi allt að 500 milljónir af þeim 1.200 milljónum sem samið var um. Kemur það heim og saman við heimildir Viðskiptablaðsins en þær herma að fjárfestarnir muni fá rúman þriðjung af fjárhæðinni.

Þá liggur fyrir að þóknun Sveins Andra var að hluta til hagsmunatengd en Arion banki, eigandi Valitor, krafðist þess að lögmaðurinn viki sæti sem skiptastjóri Wow air af þeim sökum. Hagsmunir hans af lyktum máls SPP og DC gegn Valitor væru slíkir að jafna mætti honum sem aðila málsins. Í samtali við Viðskiptablaðið staðfestir Sveinn Andri tilvist slíks samkomulags en segir að um það ríki trúnaður. Heimildir blaðsins herma að hann muni fá allt að 10% í sinn hlut.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ólafur Vignir Sigurvinsson, fyrrverandi meðeigandi DC, að hann hafi greitt málið að fullu úr eigin vasa en það kemur ekki heim og saman við heimildir blaðsins úr ýmsum áttum. Fullyrðir hann að WikiLeaks muni fá sitt og gott betur. Uppgjör bótanna muni fara fram í næstu viku.

Undanfarna viku hefur Viðskiptablaðið ítrekað reynt að ná á Kristni Hrafnssyni, ritstjóra WikiLeaks, bæði símleiðis og gegnum skilaboð. Hann hefur hins vegar ekki svarað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .