Ágreiningur milli aðila innan Evrópusambandsins sem aðhyllast verndarstefnu og þeirra sem aðhyllast frjálsan markað mun að öllum líkindum aukast á næstu misserum, en ágreiningurinn snýst um hvort halda eigi áfram að leggja undirboðstolla á ódýra skó sem fluttir eru inn frá Kína og Víetnam.

Peter Mandelson, formaður viðskiptaráðs Evrópusambandsins, hefur tilkynnt að hann geti ekki gert meir til að leysa úr ágreiningnum og muni láta ráðamönnum þjóðanna eftir að leysa úr málinu. Hann mun leggja til á fundi framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins að haldið verði áfram að leggja undirboðstolla á skó frá löndunum tveimur, þrátt fyrir mótmæli frá flestum aðildarríkjunum.

Ef tillagan fær ekki meirihluta atkvæða fyrir 6. október næstkomandi, verða undirboðstollarnir felldir úr gildi og munu skór sem seldir eru á óeðlilega lágu verði flæða inn í Evrópusambandsríkin.

Ítalía, Frakkland og Spánn eru meðal þeirra þjóða sem aðhyllast verndarstefnu og þurfa þær nú að sannfæra þær þjóðir sem aðhyllast frjálsan markað, sem eru meðal annars, Bretland, Danmörk, Þýskaland og Svíþjóð, um að samþykja tillögu Mandelson.

Mandelson hefur þó lýst yfir efasemdum um skilvirkni undirboðstolla, þar sem bæði Evrópuþjóðir sem framleiða skó í Víetnam og Kína verði fyrir tollunum og einnig að þeir komi niður á verslanarekendum og neytendum þar sem ekki er mikið um skóframleiðslu.

Hann segir að enginn verði þvingaður til að samþykja tillöguna, hún sé þó byggð á rannsóknum sem segja til um skaðsemi óhefts innflutnings frá löndunum, en á endanum sé ákvörðunin sett í hendur aðildarríkjanna.