*

þriðjudagur, 10. desember 2019
Erlent 28. mars 2018 18:08

Ágreiningur um viðbrögð gegn tollum

Tollastefna Trumps hefur rekið fleyg á milli Þjóðverja og Frakka.

Ritstjórn
Emmanuel Macron, Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
epa

Þjóðverjar eru reiðubúnir að gera hvað sem þarf til að koma í veg fyrir viðskiptastríð við Bandaríkin og verja þýskan iðnað. Frakkar, á hinn bóginn, vilja að Evrópusambandið veiti Bandaríkjunum engan afslátt og mæti boðuðum tollum á evrópskar vörur af fullri hörku.

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg, sem segir tollastefnu Donalds Trump, forseta Bandaríkjana, hafa skapað ágreining meðal ríkja Evrópusambandsins um það hvernig bregðast eigi við þeim tollum sem Trump hefur boðað á evrópskar vörur.

Fyrr í þessum mánuði samþykkti Trump 25% toll á innflutt stál og 10% toll á ál frá helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna, en Evrópusambandið er, ásamt Kanada, stærsti útflytjandi stáls til Bandaríkjanna. Bandaríkin eru jafnframt stærsta viðskiptaþjóð Evrópusambandsins. Með tollum á vörur frá Evrópusambandinu hefur Trump sagst vera að „spegla“ viðskiptahindranir fyrir bandarísk fyrirtæki á Evrópumarkaði. 

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur hótað að sambandið muni svara tollum Trumps með gagntollum á bandarískar vörur á borð við viskí, Levi's gallabuxur og Harley Davidson mótorhjól. Evrópusambandið, Kanada, Mexíkó, Ástralía, Suður-Kórea, Brasilía og Argentína hafa fengið undanþágu frá tollum á ál og stál þar til 1. maí næstkomandi. Það gefur Evrópusambandinu tíma til að móta sameiginlega stefnu gagnvart boðaðri verndarstefnu Bandaríkjanna. 

Samkvæmt frétt Bloomberg eru Þjóðverjar hlynntir samkomulagi við Bandaríkin þar sem tollar eru endurskoðaðir á fjölda bandarískra innflutningsvara, sérstaklega á bíla, en einnig á tæki, matvæli og lyf. Frakkar vilja hins vegar setja þrýsting á Kína hvað ríkisstyrki og umframframleiðslu á stáli varðar. 

Meðaltollar í Evrópusambandinu eru 3%, á meðan tollar eru að meðaltali 2,4% í Bandaríkjunum.