Hugmyndir um 20% niðurfellingu skulda er með öllu óraunhæf. Slíkt yrði ómarkvisst fyrir utan það að vera allt of dýrt.

Þetta kom fram í máli Mark Flanagan, sem leitt hefur sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á landi síðustu tvær vikur á blaðamannafundi í Seðlabankanum í morgun.

Aðspurður tók Flanagan ekki vel í hugmyndir um 20% niðurfellingu skulda. Hann sagði að fyrir það fyrsta myndi slík niðurfelling hjálpa mjög mörgum sem þurfa ekki á því að halda. Einnig væri sú aðgerð einfaldlega allt of dýr fyrir ríkið og þar með skattgreiðendur.

Þá bætti Flanagan við að í raun yrði hlutfallsleg niðurfelling skulda ómarkviss. Til væru auðveldari og markvissari leiðir til að mæta heimilum í erfiðleikum.