Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) fær einhverju um það ráðið mun aflétting gjaldeyrishafta taka tímann sinn og verða framkvæmd af mikilli varfærni. Sjóðurinn telur áhættu sem tengist of hröðu afnámi haftanna einn af lykiláhættuþáttum varðandi framgang efnahagsáætlunar sjóðsins og stjórnvalda. Virðist sjóðurinn hafa áhyggjur af því að krónan kunni að gefa talsvert eftir verði farið of hratt í afnámið. Leggur AGS áherslu á endurbætur á peningastefnunni í tengslum við þær endurskoðanir á efnahagsáætluninni sem eftir eru. Þá telur sjóðurinn mikilvægt að Seðlabankinn setji aukinn kraft í gjaldeyriskaup sín í því skyni að stækka gjaldeyrisforðann, en líklega munu Seðlabankamenn halda að sér höndum hvað það varðar þar til krónan sækir í sig veðrið að nýju.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag. Segir að það gæti dregist að gefið verði í varðandi gjaldeyriskaupin í ljósi þess að eftir veikingarhrinu undanfarinna daga hefur krónan ekki verið veikari frá því í júlílok 2010.

„Í viljayfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við 4. endurskoðun lýstu þau vilja sínum til þess að auka gjaldeyriskaup Seðlabankans á markaði þar sem nauðsynlegt er að stækka þann hluta gjaldeyrisforða bankans sem ekki er tekinn að láni. Tekur AGS undir þetta sjónarmið, enda sé útlitið gott varðandi greiðslujöfnuð, og þar með innflæði gjaldeyris, á næstunni. Hins vegar gæti það dregist eitthvað að gefið verði í varðandi gjaldeyriskaupin í ljósi þess að eftir veikingarhrinu undanfarinna daga er krónan nú veikari en hún hefur verið frá júlílokum í fyrra. Þá telur sjóðurinn að fara verði með gát í að leyfa eigendum svokallaðra aflandskróna að selja þær fyrir gjaldeyri, og slíkt verði best gert í tengslum við hina nýju áætlun um afléttingu hafta,“ segir í Morgunkorni.