Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur biðlað til forseta El Salvador, Nayib Bukele, að fjarlægja Bitcoin sem lögeyri í landinu. Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg.

El Salvador sóttist eftir því að fá 1,3 milljarða dala lán frá AGS í fyrra, en samningaviðræður þokuðust hægt vegna áhyggna AGS á því að Bitcoin sé lögeyrir í landinu. Gengi Bitcoin og annarra rafmynta hefur hríðfallið í verði að undanförnu. Þegar þetta er skrifað hefur gengi Bitcoin fallið um 25% á síðastliðnum mánuði. Sjóðurinn segir Bitcoin ógna fjármálastöðugleika, fjárhagslegum heilleika og neytendavernd.

Sjá einnig: Vill gera Bitcoin að lögeyri

El Salvador varð fyrsta og eina landið til að gera Bitcoin að lögeyri í september á síðasta ári, undir leiðsögn forsetans Nayib Bukele. Bukele vonaðist til þess að með því að gera rafeyrinn að lögeyri í landinu myndi hann hjálpa til við að ýta mannkyninu í rétta átt.

Landið byrjaði að kaupa Bitcoin á síðasta ári þegar gengið stóð í 50 þúsund dölum og hefur keypt um 1.800 Bitcoin í hið minnsta. Gengið hefur fallið um 45% frá hápunkti gengisins þegar það stóð í 68 þúsund dölum í byrjun nóvember. Samkvæmt þessum tölum hefur El Salvador tapað um 20 milljónum dala á Bitcoin fjárfestingunum.