Engin brýn þörf var á virkjun fjárflæðistækis Seðlabankans þann 4. júní síðastliðinn. Þetta er mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í nýrri skýrslu um íslenskt efnahagslíf segir AGS að fjárflæðistæki á borð við það sem Seðlabankinn innleiddi fyrr í mánuðinum, þar sem innstreymi erlends fjármagns til landsins er temprað, eigi að vera tímabundin. Hins vegar sé útlit fyrir að fjárflæðistæki Seðlabankans eigi að vera varanlegur hluti af verkfærakistu stjórnvalda.

AGS segir að rými sé til staðar fyrir styrkingu krónunnar vegna hagstæðrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Fjármagnsflæði til Íslands sé ekki úr hófi og engin merki séu um eignaverðsbólu knúna af lánveitingum. Í ljósi þessa sé erfitt að sjá að þörf hafi verið fyrir að innleiða hinar nýju reglur.

Vilja þolinmóða fjárfesta

Farið er um víðan völl í skýrslu AGS og er bankakerfið þar meðal annars til umfjöllunar. AGS telur að sá mikli ábati sem bankarnir hafa haft af vaxtamun hafi að hluta til orsakast af því hversu stór hluti af fjármögnun bankanna eru innlán, í ljósi þess að fjármagnshöftin hafa takmarkað sparnað erlendis.

Sjóðurinn segir að varúðar þurfi að gæta þegar innlendum sparnaði verði hleypt úr landi. Einn möguleiki sé að leyfa heimilum að fjárfesta í verðbréfasjóðum og leyfa slíkum sjóðum að fjárfesta fyrir tiltekna fjárhæð erlendis, rétt eins og gert hefur verið gagnvart lífeyrissjóðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .