Efnahagsbati í heiminum er stöðugur en þó eru fá merki um að núverandi óstöðugleiki sé að dragast saman, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn gefur út hagspá tvisvar á ári og kom út í dag. Í frétt Financial Times segir að spáin nú sé lítið breytt frá þeirri síðustu.

Spáð er að framleiðsla heimsins aukist um 4,4% á þessu ári og um 4,5% á árinu 2012. Sjóðurinn er bjartsýnn á að efnahagur iðnríkja haldi áfram að batna. Þá segir í spánni að efnahagur margra nýmarkaðsríkja sé nú betri en fyrir upphaf efnahagskrísunnar.

Þrátt fyrir ólgu í Miðausturlöndum og skuldavanda vestrænna ríkja segist sjóðurinn telja sig spá með meiri vissu um hagvöxt á árinu en í fyrri spá.