Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, AGS, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ríkisstjórn Íslands og starfsfólk AGS hafi náð samkomulagi um stefnumörkun til að styðja við fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS. Samkomulagið sé nú til skoðunar hjá framkvæmdastjórn AGS og verði að því loknu kynnt stjórn sjóðsins til ákvörðunar. Þar sem óformlegt hlé sé gert á störfum stjórnar sjóðsins í byrjun ágúst gæti verið að fundur verði haldinn seint í ágúst eða í byrjun september.

Í yfirlýsingunni, sem höfð er eftir Poul Thomsen, aðstoðarframkvæmdastjóra fyrir Evrópudeild AGS, sem fer fyrir áætlun sjóðsins vegna Íslands. Hann segir þar ennfremur að endurskoðunin, sem myndi tryggja Íslandi stuðning upp á 105 milljónir SDR, jafnvirði 21 milljarðs króna, hafi upphaflega átt að fara fram á fyrsta ársfjórðungi en  hafi tafist. Með því að hafa aukinn tíma hafi stjórnvöld getað útlistað stefnumörkun sína að fullu, þar með talið um aðhald í ríkisrekstri, afléttingu gjaldeyrishafta og um endurskipulagningu fjármálageirans.