Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur harðlega gagnrýnt samkomulag sem leiðtogar Evrópusambandsins og Grikklands undirrituðu síðasta mánudag. Þetta kemur fram í umsögn sjóðsins sem birt var í gærkvöldi.

Þar kemur fram að skuldastaða Grikklands sé afar ósjálfbær og aðeins sé hægt að bæta úr stöðunni með því að ráðast í skuldaniðurfellingu langt umfram það sem samið hefur verið um.

AGS veitti Evruhópnum umsögn sína um síðustu helgi og áður en samkomulagið var gert í byrjun vikunnar. Sjóðurinn segir að fjármögnunarþörf Grikklands til ársloka 2018 sé nú áætluð 85 milljarðar evra og skuldir landsins muni ná hámarki innan tveggja ári þar sem þær muni mest nema nálægt 200% af landsframleiðslu.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur sagt að hann hafi undirritað samkomulagið gegn vilja sínum og verið þvingaður til þess af lánardrottnum landsins. Telur hann að Grikkland þurfi á mun umfangsmeiri skuldaniðurfellingu að halda til þess að komast aftur á réttan kjöl..