Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) vinnur nú í fyrsta sinn að leiðbeiningum um hvernig og hvenær þjóðum er leyfilegt að stýra flæði fjármagns. Leiðbeiningarnar þykja umdeildar en hingað til hefur AGS talað gegn því að slík stjórntæki séu notuð. Financial Times greinir frá í dag.

Leiðbeiningarnar eru ekki enn hluti af opinberri stefnu AGS. Í reglunum segir að lönd geti handstýrt flæði fjármagns þegar gjaldmiðillinn er ekki of veikur, þegar gjaldeyrisforði er nægur og þegar ríki geta ekki notast við önnur peningaleg- eða efnahagsleg stjórntæki. Í dag á þetta við um þriðjung ríkja heimsins, samkvæmt úttekt AGS.

Í frétt Financial Times segir að reglunum sé ætlað að koma í veg fyrir mikið innflæði fjármagns spákaupmanna og til þess að aðskilja þá fjármuni frá þeim sem leita í fjárfestingar til lengri tíma.

Þetta þykir mikil stefnubreyting frá stefnu AGS, sem hefur talað með frjálsu fjármagnsflæði. Financial Times rifjar upp að sú stefna hafi þó komið í hausinn á AGS á árunum 1997-8 þegar ríki Asíu glímdu við efnahagskreppu. Þá flæddi mikið erlent fjármagn úr Asíulöndunum og var þeim skaðlegt.

AGS segir að ríki sem ætli sér að nota gjaldeyrishöft þurfi að átta sig á áhættunni við að nota þau og þann kostnað sem af þeim hlýst.