Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að Grikkland fái engan frest á afborgun láns frá sjóðnum sem er á gjalddaga þann 30. júní næstkomandi. Verði ekki af greiðslunni muni það leiða til greiðsluþrots gríska ríkissjóðsins. BBC News greinir frá þessu.

Þetta sagði Lagarde við fjölmiðla að loknum fundi sínum með fjármálaráðherra Lúxemborgar. Sagðist hún þó virkilega vona að Grikkland gæti staðið við skuldbindingar sínar. Þess má til gamans geta að Lagarde er stödd á Íslandi í augnablikinu til að taka þátt í ráðstefnunni WE 2015 í Hörpu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagðist í morgun enn vera sannfærð um að hægt væri að ná samkomulagi við Grikkland um niðurgreiðslu skuldanna. Sagði hún jafnframt að Þýskaland ynni hörðum höndum að því að halda Grikklandi í evrusamstarfinu.